Fasteignakaup – óháð ráðgjöf

Kaup á fasteign er að jafnaði ein stærsta fjárfesting hvers einstaklings og miklu skiptir að vandað sé til verka. Ávallt skal skoða eignina vel áður en tilboð er gert og leita sér aðstoðar fagmanna ef viðkomandi er í vafa um ástand eignarinnar. Þá er góð regla að hafa hæfilegan fyrirvara á þeim upplýsingum sem fram koma í söluyfirliti og þeim upplýsingum sem seljandi kemur á framfæri. Þótt skylda hvíli á seljanda að greina satt og rétt frá ástandi eignarinnar getur seljandi freistast til að halda óþægilegum upplýsingum leyndum. Aðrir þættir sem skipta máli eru m.a. verð, fjármögnun og mögulegar kvaðir á eigninni.

Skv. lögum ber fasteignasölum skylda til að vinna jafnt að hag seljanda sem kaupanda. Hann skal einnig gæta þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum. Almennt má segja að fasteignasalar vinni sína vinnu vel og reyni eftir fremsta megni að samræma þessar skyldur sínar. Hins vegar gefur það augaleið að það hlutverk er ekki alltaf auðvelt eða samrýmanlegt. Fasteignasalar fá eignir til sölumeðferðar frá seljendum og það er seljandi fasteignar sem borgar fasteignasalanum launin. Þess vegna ættu kaupendur að íhuga að fá óháðan aðila til að veita sér ráðgjöf og fara í gegnum öll gögn sem fylgja kaupunum.

Jafnvel þótt einhver aukakostnaður fylgi því að leita sér aðstoðar lögmanns, iðnaðarmanns, verkfræðings eða annarra sérfræðinga getur reynst dýrkeypt að kaupa eign sem haldin er kvöðum sem viðkomandi vissi ekki um eða jafnvel einhverjum göllum.

Hefur þú spurningar um efni greinarinnar eða þig vantar aðstoð? Hafðu samband í síma 440 7900 á pacta@pacta.is.