Kaupsamningur og söluyfirlit í fasteignaviðskiptum

Strax og fasteignasali fær eign til sölumeðferðar, eða honum er falið að ganga frá kauptilboði og/eða kaupsamningi um eign, sem ekki er til sölumeðferðar hjá öðrum fasteignasala og ekki hefur verið gert söluyfirlit um og afhent kauptilboðsgjafa, skal hann semja söluyfirlit um þau atriði sem skipt geta máli við sölu eignarinnar. Ef upplýsingar í söluyfirliti eru ekki réttar getur það leitt til skaðabótaskyldu seljanda eins og reyndin var í dómi frá 2002. Þar var íbúð skv. söluyfirliti úr steini en í raun voru útveggir íbúðarinnar úr timbri og forskalaðir að innan.

Söluyfirlit skal afhent væntanlegum tilboðsgjafa áður en tilboð er gert í eign og skal hann staðfesta móttöku þess með undirskrift og dagsetningu. Fasteignasali skal afla undirskriftar seljanda á yfirlýsingu um að efni söluyfirlits sé rétt samkvæmt bestu vitund hans. Fasteignasali skal gæta þess vandlega að á söluyfirliti komi fram öll grundvallaratriði um eiginleika og ástand eignarinnar sem ætla má að geti verið grundvöllur ákvörðunar kaupanda um hvort hann kaupir eignina og hvaða verð hann er tilbúinn að greiða fyrir hana. Í söluyfirliti skal, auk almennrar lýsingar á fasteign, eftirfarandi m.a. koma fram:

  • Söluverð sem eigandi óskar að fá fyrir eign, sé það ákveðið.
  • Staðsetning eignar og númer, stærð hennar skv. opinberum skrám, fasteignamat, brunabótamat, byggingarlag og byggingarefni og byggingarár eignar.
  • Teikning sem sýni fyrirkomulag innan húss skal jafnan vera fyrir hendi, svo og lóðaruppdráttur sé hann til.
  • Upplýsingar um ástand eignar og einstakra hluta hennar, þar á meðal um galla sem seljanda og/eða fasteignasala er kunnugt um á eign.
  • Föst gjöld af eigninni, áhvílandi veðskuldir, kvaðir og önnur eignahöft, skv. veðbókarvottorði.
  • Kostnaður sem kaupandi hefur af kaupum, þar á meðal þinglýsingarkostnaður, stimpilgjöld, umsýslukostnaður kaupanda, lántökukostnaður sé það unnt o.fl.
  • Húsgjöld og yfirstandandi eða væntanlegar framkvæmdir sem búið er að ákveða á fundi húsfélags, sé um fjöleignarhús að ræða, og um stöðu eiganda gagnvart hússjóði og framkvæmdasjóði húsfélags.