Kaupsamningur um fasteign - fyrirvarar

Kaupsamningur um fasteign skal vera skriflegur skv. lögum um fasteignakaup en það er undantekning frá þeirri skýru meginreglu að samningar geta verði hvort heldur sem er skriflegir eða munnlegir til að halda gildi sínu. Til að samningur geti talist kaupsamningur um fasteign þarf annars vegar skriflegt tilboð að hafa verið samþykkt af móttakanda þess með undirskrift og hins vegar verður tilboðið að fela í sér skuldbindingu um greiðslu tilgreinds kaupverðs og skuldbindingu um afhendingu eignar. Þannig þarf t.d. ekki að vera samið um hvernig kaupverð skuli greiðast né hvenær eign skuli afhent

Í kaupsamning er hægt að setja ákvæði um að skuldbindingargildi samnings sé bundið fyrirvara. Algengasti fyrirvarinn er um fjármögnun kaupanda, þ.e.a.s. að kaupandi gerir tilboð í eign en setur fyrirvara um að hann komist í gegnum greiðslumat og viðskiptabanki hans veiti lán til kaupanna. Hægt er að gera aðra fyrirvara en það þarf alltaf að hafa í huga að fyrirvari sé ekki ólögmætur, ósanngjarn eða óeðlilegur. Hlutverk fasteignasala er m.a. að tryggja þetta. Skv. fasteignakaupalögunum skal kaupsamningur falla niður að liðnum tveimur mánuðum frá því að hann komst á ef skuldbindingargildi kaupsamnings er bundið fyrirvara um atvik sem ekki hefur gengið eftir. Tveggja mánaðar fresturinn byrjar að líða er tilboð hefur verið samþykkt af báðum aðilum.

Ef annað hvort seljandi eða kaupandi uppfylla ekki skyldur sínar skv. kaupsamningi hafa báðir aðilar ýmiss úrræði sem hægt er að grípa til. Þannig geta báðir aðilar krafist efnda á kaupsamningi, þeir geta rift kaupsamningi í ákveðnum tilvikum eða krafist skaðabóta. Kaupandi getur einnig haldið eftir greiðslu kaupverðs. Seljandi getur hins vegar haldið eftir greiðslu, þ.e.a.s. neitað að afhenda fasteignina eða neitað að gefa út afsal en seljandi getur eining krafist vaxta og dráttarvaxta.

Hefur þú spurningar um efni greinarinnar eða vantar þig aðstoð? Hafðu þá samband í síma 440-7900 eða á netfangið pacta@pacta.is