Aukin persónuvernd

Miklar framfarir á sviði tölvu- og upplýsingatækni undanfarin 10 til 20 ár hafa valdið sprengingu gagnamagns persónuupplýsinga í umferð. Almenn notkun internetsins, snjalltækja, tölvuskýja og samfélagsmiðla hefur svo enn aukið sjálfvirkni skráningar persónuupplýsinga.

Persónuverndarlögum nr. 90/2018 er ætlað að mæta þessari framþróun. Lögin gera auknar kröfur um fræðslu til þeirra sem persónuupplýsingarnar eru um og veitir einstaklingum betri vernd og meiri réttindi. Löggjöfin tryggir þeim einnig betri stjórn á eigin upplýsingum þannig að þeir viti hver vinnur með upplýsingarnar, hvenær þær eru unnar og í hvaða tilgangi. 

Fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir eiga að líta á bætta persónuverndarlöggjöf sem tækifæri til framfara, bættrar þjónustu við viðskiptavini sína og íbúa og til að breyta starfsháttum sínum til hins betra þar sem skráning, vinnsla og vistun persónuupplýsinga verður vandaðri og gagnaöryggi eykst.

Skýr persónuverndarstefna sem byggð er á heiðarleika og gagnsæi eykur virðingu og traust í garð fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana.