Lifandi verkefni fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana

Persónuverndarlöggjöfin frá 2018 hefur mikil áhrif á störf fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana hvað varðar vinnslu og meðferð þeirra persónuupplýsinga sem unnið er með á degi hverjum. Fyrir allri vinnslu hvort sem upplýsingarnar teljast viðkvæmar eða ekki, þarf að vera skýr heimild.

Sveitarfélög og stofnanir eru í flestum tilvikum ábyrgðaraðilar vegna vinnslu persónuupplýsinga. Þau geta einnig verið í stöðu vinnsluaðila eða þurfa að gera samninga við vinnsluaðila. Fyrirtæki eru hins vegar oft vinnsluaðilar en geta einnig verið ábyrgðaraðilar. Mikilvægt er að vandað sé til verka við alla samningsgerð sem snýr að persónuverndarlöggjöfinni.

Megintilgangur persónuverndarlaga er að auka réttarvernd einstaklinga við vinnslu persónuupplýsinga. Meðal helstu réttinda sem kveðið er á um eru:

  • Réttur til upplýsinga um hvort unnið sé með persónuupplýsingar
  • Réttur til aðgangs að upplýsingum
  • Réttur til að gleymast (persónuupplýsingum eytt)
  • Réttur til leiðréttingar á upplýsingum
  • Réttur til takmörkunar á vinnslu
  • Réttur til að flytja eigin gögn

Meðal fjölmargra áskorana sem fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir standa frammi fyrir er að endurskoða reglulega skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Fara þarf yfir hvaða vinnsla persónuupplýsinga fer fram á hverjum tíma og kanna lögmæti hennar. Þá þarf að eyða gögnum ef ekki er lögmætur tilgangur með því að geyma þau áfram.

Fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir þurfa að kynna sér persónuverndarlöggjöfina og gæta þess að starfsfólk þess fái fullnægjandi fræðslu. Rétt meðferð persónuupplýsinga þarf að verða hluti af starfs- og þjónustuferlum viðkomandi aðila. Þá þurfa fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir að gæta að því hvernig þau nýta persónuupplýsingar við stjórnun, greiningu og veitingu þjónustu.

Þessi verkefni geta leitt til gagnlegra og jákvæðra breytinga. Með réttri innleiðingu og jákvæðu hugarfari mun traust og tiltrú almennings á störfum fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana aukast.

„Hraði og skilvirkni löggjafans mun seint standast tækni- og tölvusnillingum 

morgundagsins snúning. – Við verðum alltaf árum eða áratugum á eftir þeim.“

– Quote from EU Parliament member