Hvernig ganga málin fyrir sig?

Þegar slys hefur orðið er mikilvægt að fá réttar ráðleggingar um bótarétt sinn.

Þegar slys hefur orðið er mikilvægt að fá réttar ráðleggingar um bótarétt sinn en innheimta slysabóta getur oft tekið langan tíma. Bætur eru oftast gerðar upp á grundvelli matsgerðar læknis eða lækna. Slíkt mat er oftast ekki hægt að gera fyrr en í fyrsta lagi þegar ár er liðið frá slysi. Þegar ár er liðið er í flestum tilfellum talið að líkamlegt ástand sé orðið stöðugt og ekki að vænta frekari bata. Það hvenær tímabært er að meta líkamstjón er mat læknis sem gefur út lokalæknisvottorð.

Það er nauðsynlegt að setja sig í samband við okkur sem fyrst eftir slys. Það auðveldar okkar vinnu og við nýtum tímann þangað til fyrst er hægt að meta tjónið til að afla allra nauðsynlegra gagna.

Engin tvö mál eru eins og því er ferlið mismunandi. Í byrjun er algengast að við fáum fyrirspurn vegna könnunar á bótaskyldu. Tjónþoli sendir inn fyrirspurn með upplýsingum um slysið og við höfum samband símleiðis eða í gegnum tölvupóst. Því næst útbýr lögmaður PACTA umboð sem þú skrifar undir þar sem PACTA er falið að vinna að innheimtu bóta. Þar til tímabært er að meta líkamstjónið er unnið að öflun allra gagna sem nauðsynlega þurfa að liggja fyrir svo þú fáir greiddar þær bætur sem þú átt rétt á.

Ef þú lendir í slysi og finnur einhvers staðar til þá er nauðsynlegt að leita strax til læknis. Oft er það þannig að sá sem verður fyrir slys finnur ekki fyrir áverkum fyrr en daginn eftir og því er nauðsynlegt að leita þá þegar til læknis. Mikilvægt er að allt sé skráð í sjúkragögn frá upphafi og því er mikilvægt að láta lækninn vita ef þú telur áverkana vera vegna slyssins.  

Það næsta sem nauðsynlegt er að gera er að setja sig í samband við okkur og við setjum málið í réttan farveg. Ef langur tími líður frá því að slys átti sér stað þangað til hafist er handa við að innheimta bætur getur það leitt til þess að erfiðara verði að sanna atvik og orsakatengsl milli áverka og slyssins. Það er því nauðsynlegt að fá fagmann í málið sem fyrst.

Ef tjónþoli verður fyrir tekjutapi og á ekki rétt á launum frá atvinnurekanda á meðan hann er óvinnufær sækja lögmenn PACTA tekjutapið til tryggingafélags. Ekki þarf því að bíða þar til málið er gert upp. Þegar tímabært er að leggja mat á líkamstjónið setur lögmaður PACTA upp matsbeiðni og þá eru tilnefndir matsmenn. Þegar matsgerð liggur fyrir gerir lögmaður PACTA bótakröfu á hendur tryggingafélagi. Þegar bætur liggja fyrir er málið gert upp og greitt inn á reikning tjónþola.

Í flestum tilfellum næst samkomulag um bótagreiðslu við tryggingafélag eða þann sem er bótaskyldur. Þegar ekki næst samkomulag sjá lögmenn PACTA um málshöfðun fyrir dómstólum.

Ef einhverjar spurningar vakna skaltu hafa samband við okkur. Við viljum heyra í þér.