Um atferli hinna íslensku jólasveina að gættum hegningarlögum

24/12/2022

Málflutningur Sakamál Vátrygginga- og skaðabótaréttur Erfða- og hjúskaparréttur Kröfu- og samningaréttur Eignaréttur

Um atferli hinna íslensku jólasveina að gættum hegningarlögum

24/12/2022

Nú fer senn í hönd hátíð ljóss og friðar. Börn og fullorðnir hlakka til. Það er líkt og friðsæld umvefji fólk í aðdraganda jóla og yfir hátíðirnar og má segja að jólaandinn dragi að jafnaði fram bestu eiginleika og kosti fólks. Kærleikur svífur yfir vötnum og hortugheitin rjátlast af harðsvírustu mönnum.

Í árhundruð hafa svonefndir jólasveinar í raun réttri verið órjúfanlegur þáttur í jólahaldinu. Þeir gömlu íslensku eru sagðir níu eða þrettán talsins. Þeir eru afkvæmi Grýlu, skelfilegrar tröllkerlingar sem sögð er heyra um langan veg í óþekkum börnum, sækja þau og skella þeim í pottinn sinn. Endalaust hungur virðist hrjá hana. Leppalúði er eiginmaður Grýlu, einkar latur og óframtakssamur eldri maður.

Heimildir greina frá húsdýri þeirra jólakettinum, kolsvörtum stærðarinnar og ófrýnilegum ketti, sem sagður er éta börn eða hremma þau og veitast að öðrum þeim sem ekki klæðist nýrri flík um jólin. Virðist um eins konar vægðarlausa og óbilgjarna tízkulöggu vera að ræða.

Dýrlingar með afbrigðilega hegðun

Vart verður fullyrt að hinir íslensku jólasveinar séu yfirnáttúruleg fyrirbæri, þótt sumt í þeirra fari bendi til þess, svo sem að þeir kunni að vera mörg hundruð ára gamlir. Hvað sem öðru líður hafa þeir yfir sér þjóðsagnakenndan blæ. Heiti þeirra er ekki lögverndað og öllum því frjálst að kalla sig jólavein. Það þykir þó almennt ekki til virðingar eða hróss nema viðkomandi einsetji sér að leika eða klæða sig sem jólasvein.

Í aðdraganda jóla koma jólasveinar af fjöllum, hvar þeir eiga heimili, og herja á byggðir landsmanna. Þeir koma einn af öðrum til byggða og sá fyrsti 12. desember ár hvert. Sá síðasti kemur á aðfangadag, 24. desember. Hver jólasveinn hefur sitt einkenni, blæti og sína hegðunarröskun ef svo má segja. Í byggðum hneigjast jólasveinar til þess að brjótast inn í híbýli fólks, sleikja þvörur, skafa matarafganga upp úr pottum og pönnum, stela mat og öllu steini léttara, skella hurðum, éta kerti og stara á kertaloga, svo eitthvað sé nefnt. Einn þeirra er svo óforskammaður að hann gægist inn um glugga á híbýlum fólks.

Framanritaðar lýsingar eru ófagrar svo ekki sé fastar að orði kveðið og bera öðrum þræði vott um afbrigðilega hegðun þessara fyrirbæra sem íslensku jólasveinarnir eru. Eigi að síður virðast þeir á margan hátt hafa yfir sér jákvæðan blæ í augum almennings í seinni tíð og í öfgafyllstu tilvikum eru þeir álitnir dýrlingar.

Ítrekuð lagabrot

Atferli sem hinir íslensku jólasveinar viðhafa í aðdraganda jóla yrði vafalaust álitið siðferðislega ámælisvert og eftir atvikum refsivert ef í hlut ætti venjulegt fólk. Það er ljóst að háttsemi þeirra vegur að friðhelgi einkalífs sem varið er af 71. gr. stjórnarskrárinnar svo og 8. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Hlutrænt séð kann hátterni þeirra eftir því sem við á að teljast húsbrot, eignaspjöll, blygðunarsemisbrot, þjófnaður o.fl. Allt að einu virðist fólk leggja blessun sína yfir gjörðir þeirra, eða í öllu falli þjást af fádæma meðvirkni, enda hafa yfirvöld ekki gengið fram fyrir skjöldu og leitast við að sporna við framferði þeirra eða draga þá til ábyrgðar.

Að best verður séð njóta jólaveinar ekki sérstakrar verndar að lögum og eru þeir ekki undanþegnir ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem nú skal gripið niður í eftir því sem við á. Mælt er fyrir um efnisþætti húsbrots í 231. gr. laganna á þann veg að ef maður ryðst heimildarlaust inn í hús eða annan honum óheimilan stað, eða synjar að fara þaðan, þegar skorað er á hann að gera það, þá varðar það sektum eða fangelsi. Samkvæmt 244. gr., sem er í auðgunarkafla laganna, varðar þjófnaður fangelsi allt að 6 árum. Samkvæmt 3. mgr. 228. gr. laganna sem fjallar m.a. um brot gegn friðhelgi einkalífs varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári fyrir þann sem hnýsist í hirslur annars manns án nægilegra ástæðna.

Lögð er refsing við eignaspjöllum í 257. gr. hvar fram kemur að hver sem ónýtir eða skemmir eigur annars manns eða sviptir hann þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Þá kemur fram í 209. gr. laganna að hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt.

Framferði jólaveina út frá lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga er svo sér kapítuli út af fyrir sig, sem ekki verður fjallað um hér. Þá gefst ekki tóm hér til að fjalla um úrræði fólks til réttarverndar gagnvart jólaveinum á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann o.fl.

Hegðun gagnvart jólasveinum

Samþykki fólks fyrir framferði jólasveina, sem hlutrænt séð varðar við ákvæði hegningarlaga, getur haft í för með sér að verknaður þeirra telst ekki ólögmætur þar af leiðandi ekki refsinæmur. Af þessum sökum er brýnt að fólk, sem hugnast ekki hegðun íslenskra jólasveina, samþykki ekki vafasamar athafnir þeirra í orði eða verki.

Í dæmaskyni má nefna að forðast skal til hins ítrasta að ginna eða hvetja jólasveina til þess að koma að eða inn fyrir hússins dyr t.a.m. með því að skilja eftir skyr eða annan mat á glámbekk, hafa logandi kerti á kommóðu, dyr í húsinu opnar eða tjöld dregin frá gluggum. Það gæti verið virt sem samþykki fólks í verki fyrir húsbroti, gluggagægjum, skemmdum á hurðum og öðru atferli jólasveinanna í ljósi almennrar vitundar landsmanna um vafasamsar tilhneigingar og breyskleika þeirra.

Þá er rétt að brýna fyrir foreldrum að gefa börnum sínum flík fyrir jólin (sokkar ættu að nægja) til að fyrirbyggja að jólakötturinn veitist að þeim.

Að þessu gættu óska ég ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

 

.

Við leitum að löglærðum fulltrúa á Selfossi

Við leitum að löglærðum fulltrúa til þess að ganga til liðs við okkur hjá Pacta á Selfossi. Verkefnin eru fjölbreytt og helst á sviði stjórnsýslu- og sveitarstjórnarréttar, samninga- og kröfuréttar, refsiréttar, erfða- og skiptaréttar, eignaréttar og skaðabótaréttar. Helstu verkefni og ábyrgð eru lögfræðiráðgjöf til fyrirtækja, opinberra aðila og einstaklinga ásamt málflutningi og ábyrgð á fyrirtökum […]

Urðum við skilvísari í Covid?

Á hverju ári tekur Motus saman skýrslu um greiðsluhraða hjá sveitarfélögunum og ber saman við aðra geira.

Alþjóðleg tengsl – The Parlex Group

Pacta er virkur aðili að The Parlex Group sem er alþjóðlegt net 28 lögmannsstofa sem m.a. sérhæfa sig í fyrirtækja- og fjármálaráðgjöf.

Ný ásýnd Pacta

Hjá Pacta leggjum við metnað okkar í að veita trausta lögfræðiþjónustu sem byggir á reynslu og þekkingu á aðstæðum.

Við vinnum jafnt með fólki og fyrirtækjum sem fá sömu traustu lögfræðiþjónustu frá fólkinu okkar.    Takk fyrir að
    hafa samband